Horft til heiða

Grein, birt í Morgunblaðinu 15. mars 2013

Í fréttum RÚV sjónvarps 11. þ.m. var sagt að veðurfarsmælingum vegna hugsanlegs flugvallar á Hólmsheiði væri lokið, og að fréttastofan hefði undir höndum "kynningu á málinu sem ekki hefur verið gerð opinber". Var þar vitnað í "minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits, sem hefur skoðað veðurmælingarnar. Þar segir að veðurfar á Hólmsheiði sé töluvert óhagstæðara en á Reykjavíkurflugvelli. Mannvit telur þó að viðunandi nýting náist á flugvellinum þó hún verði ekki jafngóð og á Reykjavíkurflugvelli." Þessi tíðindi voru í fréttatímanum rædd við formann borgarráðs.

Það vekur óneitanlega furðu að heyra slíkar yfirlýsingar þar sem umrædd gögn hafa ekki enn verið kynnt íslenskum flugrekendum, sem eru mun betur til þess bærir að meta "viðunandi nýtingu". Meðal þeirra er Flugfélag Íslands, sem sinnt hefur áætlunarflugi til og frá Reykjavík í heil 75 ár.

Samkvæmt vinnureglum ICAO og WMO er gert ráð fyrir 5-7 ára mælingum veðurþátta áður en hugað er að gerð nýs flugvallar. Slíkt er m.a. forsenda þess að velja flugbrautum réttar stefnur. Veðurstofu Íslands var falin framkvæmd veðurmælinga á Hólmsheiði, og voru Flugstoðir ohf. verkkaupi fyrsta áfanga. Skýrsla merkt "VÍ 2009-016" ber heitið "Veðurmælingar á Hólmsheiði 11. jan. 2006 - 31. okt. 2009", og er birt á vefsíðunni www.vedur.is. Í niðurstöðum segir:

"Stöðin liggur lengra inn í landi en Reykjavíkurflugvöllur og um 120 m hærra. Því var meðalhitinn 1,1°C lægri á Hólmsheiði, lægsti hiti lægri og hæsti hiti hærri en á Reykjavíkurflugvelli. Ennfremur mældist hiti við eða undir frostmarki mun oftar, í 48% tilvika yfir vetrarmánuðina en í 29% tilvika á Reykjavíkurflugvelli. Rakastig lofts var hærra á Hólmsheiði en á Reykjavíkurflugvelli, sem bendir til þess að tíðni þoku og súldarveðurs sé hærri. Ætla má, í ljósi mælinga á hitafari og rakastigi að viðhaldsaðgerðir vegna hálku og ísingar á Hólmsheiði yrðu nokkru umfangsmeiri en á Reykjavíkurflugvelli. Meðalvindhraði var 1,1 m/s hærri og mesta vindhviða 7 m/s hvassari. Úrkoma mældist 100 mm meiri en í Reykjavík. Tíðni lítils skyggnis og lágrar skýjahulu er hærri á Hólmsheiði en á Reykjavíkurflugvelli. Mat á nothæfisstuðli fyrir fyrirhugaðan flugvöll er lægra en sambærilegt mat fyrir Reykjavíkurflugvöll. Því má draga þær ályktanir af þeim veðurgögnum sem tiltæk eru að það séu líkur á því að nothæfi flugvallar á Hólmsheiði yrði nokkuð minna en nothæfi núverandi flugvallar í Reykjavík."

Af lestri framangreinds er ljóst, að með hliðsjón af veðurfarslegum þáttum einum saman kæmi Hólmsheiði ekki til álita sem sá flugvöllur, sem þjóna ætti sem miðpúnktur innanlandsflugs Íslands. Á vefsíðu Veðurstofu kemur fram að í lok árs 2012 hafi verið lokið skýrslu um annan þátt veðurmælinga. Hún er merkt "VÍ 2012-017", og ber heitið "Veðurmælingar á Hólmsheiði 1. feb. 2006 - 31. okt. 2012", en er á þessi stigi "lokuð". Þegar leitað var skýringa kom fram, að skýrslan væri ekki opinber "þar sem verkkaupinn er ekki búinn að kynna hana fyrir sínum aðilum". Verkkaupi í þessu tilviki mun vera Reykjavíkurborg.

Núverandi Reykjavíkurflugvöllur hefur þá sérstöðu að að- og brottflugsferlar hans liggja að mestu leyti yfir sjó. Við aðflug til suðurs að aðalflugbrautinni er flogið aðeins 1,6 km feril yfir byggt svæði, þ.e. frá Örfirisey að Tjörninni. Svo vill til, að á þessu litla svæði eru tveir virtir vinnustaðir 78 kjörinna fulltrúa, þ.e. 63 alþingismanna og 15 borgarfulltrúa, og kann það hafa einhver áhrif á skoðanir sumra þeirra um þýðingu flugsamgangna.

Hugsanlegur flugvöllur á Hólmsheiði yrði hins vegar um sjö km frá strönd og í 135 m hæð. Í umræðum um hann hefur til þessa ekkert verið minnst á að- og brottflugsferla, og því tími kominn til að ræða slíkt. Aðalblindaðflugið yrði til austurs, og sú flugbraut því búin blindlendingarkerfi (ILS), sbr. meðfylgjandi mynd. Staðalstaðsetning svonefnds ytri markvita slíks kerfis, er 7,2 km frá lendingarstað, þ.e. að stöðin yrði í Vogahverfinu, skammt vestan við ósa Elliðaáa.

Vestan og norðvestan við þessa stöð yrði svo hefðbundin blindaðflugsslaufa, sem þá lægi yfir Sundahverfi, Heimahverfi, Múlahverfi og Skeifunni. Lokaaðflugsferillinn, og í lágum flughæðum, lægi síðan yfir Höfðahverfi og Árbæjarhverfi. Næst þegar borgarfulltrúar efna til hverfafunda fyrir austan læk væri tilvalið að kynna þessi mál íbúum þessara fjölmennu borgarhverfa.

Gróflega vanhugsaðar hugmyndir um "flutning" Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri komu fram í upphafi valdatíma R-listans 1994-2006. Með þetta steinbarn í maganum rogast nú enn fánaberi Samfylkingar í borgarstjórn. Undanfarinn áratug hafa verið gerðar fjöldi marktækra kannana um afstöðu þegna landsins til núverandi flugvallar. Sammerkt þeim er afgerandi og vaxandi stuðningur við flugvöllinn á núverandi stað, bæði af hálfu íbúa Reykjavíkur og landsins alls. Þessa dagana er mikið rætt um þörf fyrir aukið íbúalýðræði. Er til of mikls vænst af núverandi borgarfulltrúum að þeir taki mið af slíkum eindregnum vilja kjósenda?

Leifur Magnússon
verkfræðingur



Skrifaðu undir stuðning við flugvöllinn í Vatnsmýri